SÁS

Vandinn er…..

Vandinn er…..

admin admin 15/01/2021

Að nú er mælirinn fullur.

Árið 1999 var borin upp tillaga í háskólaráði Háskóla Íslands, sem á Happdrætti Háskóla Íslands, sem rekur Gullnámuna – hin íslensku Casino eins og það er auglýst meðal annars á Lækjartorgi, þess eðlis að HÍ hætti rekstri spilakassa.

Sú tillaga náði ekki í gegn.

Á árunum 2010 – 2011 reyndi þáverandi innanríkisráðherra að fá rekstraraðila spilakassa á Íslandi, Gullnámuna og Íslandsspil, til þess að taka samfélagslega ábyrgð á rekstrinum og taka upp einhverja hömlur á því hversu mikið einstaklingar gætu eytt í spilakassana, t.d. með því að taka í notkun spilakort.

Sú tilraun var árangurslaus.

Ýmsir einstaklingar hafa reynt að hafa samband við rekstraraðila spilakassanna sem og stjórnvöld og bent á skaðsemi þessarar starfsemi.

Þær tilraunir hafa engan árangur borið.

Nú ber svo við að forsvarsmenn Íslandsspila lýsa því yfir í fjölmiðlum að þau hafi “Fyrirtækin tvö sem reka spilakassa hér á landi, Íslandsspil og Happdrætti Háskóla Íslands, hafa lengi styrkt meðferð þeirra sem eiga við alvarlegan spilavanda að stríða. En það er hægt að gera meira.“

Sú meðferð í skötulíki og felst í því að bjóða upp á hópfundi eina klst. í viku og helgarmeðferð nokkrum sinnum á ári. Þetta er ekki heilstæð meðferð né lýsir þetta nokkrum vilja til þess að lækna spilafíkla. Enda, hvernig má það vera að samtök sem eru svo háð spilafíklum að þau lentu í fjárhagsvanda í samkomubanninu, vegan þess að þau urðu að loka spilakössunum, vilji lækna spilafíkla og missa þar með þær tekju sem þau hafa af þeim.
Þetta er svo vitlaust að það nær engri átt að setja þetta fram og búast við að enginn sjái í gegnum tvískinnunginn.

Þessir forsvarsmenn bíta svo höfuðið úr skömminni með því að setja fram kröfu um að fá að hafa tekjur af annars konar fjárhættuspilastarfsemi, netspilun, eða eins og þau segja sjálf;

“Samkvæmt gagnaöflunarfyrirtækinu H2 Gambling Capital eru rúmlega 150 erlendar netspilasíður í boði hér á landi. Vinsælustu leikir þeirra eru spilakassar og 45% af allri netspiluninni fer fram í snjallsímum og spjaldtölvum. Árið 2019 spiluðu Íslendingar fyrir 4,5 milljarða króna á tíu vinsælustu erlendu netspilasíðunum. Þetta er svipuð velta og hjá Íslenskri getspá/Lottó. Þá kom nýlega fram að Íslenskar getraunir telja sig tapa 600 milljónum króna á ári til erlendra íþróttaveðmálasíðna.

Erlend netleikjafyrirtæki skila engum tekjum til mannúðar,- íþrótta- eða hjálparstarfs á Íslandi. Þessari þróun má snúa við með því að bjóða upp á innlenda netspilun. Sú leið hefur verið farin á hinum Norðurlöndunum með afar góðum árangri. Innlendir netleikir í hverju landi fyrir sig hafa fengið mjög góðar viðtökur og tekjurnar verða eftir innanlands. Spilakortin taka  einnig til þessara innlendu netleikja og þannig skapast heildstætt umhverfi til að hjálpa þeim sem eiga í spilavanda.“

Sú umræða á ekki heima undir umræðunni um spilakassa. Það er ekki hægt að nota óheftan rekstur spilakassanna sem skiptimynt í leit að nýrri fjáröflunarleið.

Þau segja líka að;

“Breytingar í þessa veru hafa verið ræddar við opinbera aðila á undanförnum árum. Til þessa hefur lítið þokast. Löngu tímabært er að ráðast í nútímavæðingu þessa markaðar. Þær aðgerðir þurfa að eiga sér stað með nánu samstarfi dómsmálaráðuneytisins og allra þeirra samtaka og stofnana sem starfrækja peningaspil.“

Ef það hefði verið einhver vilji til þess að taka ábyrgð á rekstri spilakassanna þá hefðu þessi samtök getað sjálf tekið af skarið og gert þær breytingar sem talað er um. En nei, þess í stað er hvert tækifæri notað til þess að þráast við og heimta frekari tekjur í formi öðru vísi fjárhættuspila.

Þetta lýsir ekki neinum vilja til þess að sýna samfélagslega ábyrgð né neinn vilja til þess að hjálpa því fólki sem á um sárt að binda vegan spilakassanna.

Nú er nóg komið og SÁS ætlar að skila skömminni heim í föðurhúsin. Skömminni af því að hafa stolið fermingarpeningunum, skömminni af því að hafa stolið frá vinnuveitandanum, skömminni af því að hafa eytt matarpeningum fjölskyldunnar, skömminni að því að hafa logið og svikið mina nánustu í mörg ár, skömminni af því að hafa misst af uppvexti barnanna vegan þess að ég stóð við spilakassa þegar þau voru að vaxa úr grasi, skömminni af því að eiga ekki fyrir jólagjöfum, skömminni af því að hafa reynt að ljúga að systkinum mínum til þess að fá þau til þess að lána mér pening, skömminni af því að sjá enga aðra leið út úr fjárhagsvandræðunum heldur en þá að taka eigin líf.