Að nú er komið nóg
Hver er munurinn á einum spilakassa og mörgum?
Jú – þú smitast ekki af Covid-19 ef þú spilar bara í kassa sem er einn síns liðs.
Samkvæmt íslenskum heilbrigðisyfirvöldum þá er engin sýkingarhætta þegar spilakassar eru einir á ferð, bara ef þeir eru margir í hóp. Þetta er þvílík snilld að leitun er að öðru eins.
Þann 22.mars, þegar fyrsta bylgja Covid-19 reið yfir, ákvað heilbrigðisráðherra, í samræmi við tillögu sóttvarnarlæknis, að loka á ákveðna starfsemi vegna sérstakrar smithættu og féllu spilakassar og spilasalir þar undir. Þá voru rökin smithætta af völdum snertiflata auk nálægðar í rými spilasala. Nú hafa sóttvarnarlæknir og heilbrigðisráðherra fundið það út að spilakassar séu ekki lengur hættulegir og almenningi – lesist spilafíklum – því óhætt að stunda sína iðju, sem er að dæla peningum í eigendur spilakassana. Þessir eigendur eru jú góðgerðasamtök og þau þurfa á sínum “tekjum” að halda til þess að hjálpa öllum öðrum en spilafíklum.
Nú kann einhver að spyrja – af hverju var ekki varúðarsjónarmiðið haft að leiðarljósi, þegar nýju reglurnar voru settar? Af hverju þurfti að leyfa spilakassa? Hvað var það sem gerðist frá því reglurnar voru settar í mars og þangað til nú? Voru gerðar sérstakar rannsóknir á smithættu spilakassa? Er veiran farin að forðast spilakassa sem eru einir síns liðs? Eða er þetta hrein og klár hagsmunagæsla, þar sem heilbrigðisyfirvöld láta glepjast af áróðri góðgerðarsamtaka? Rauða krossins, Landsbjargar og SÁÁ. Af hverju hlusta yfirvöld ekki á rödd almennings, sem kom klárlega fram í könnun sem Samtök áhugafólks um spilafíkn – SÁS – lét gera fyrr á þessu ári, þar sem yfirgnæfandi meirihluti svarenda var þeirrar skoðunar að það ætti að loka á spilakassa – varanlega. Og það sem er ekki síður mikilvægt er að í þessari sömu könnun kom fram að lítill hluti þeirra sem spurðir voru höfðu nokkru sinni spilað í þessum kössum. Sem segir okkur að megnið af þeim milljörðum sem settir eru í spilakassa á Íslandi kemur frá fíknisjúklingum. Það er það skelfilegasta í þessu máli, að íslensk heilbrigðisyfirvöld og mikilsvirtar góðgerðarstofnanir líti svo á að það sé í lagi að hafa tekjur af sjúku fólki. Þegar þessir sömu aðilar ættu þvert á móti að vera að leita leiða til þess að hjálpa sjúklingunum. En nei, tekjurnar eru svo mikilvægar að forsvarsmenn þessara stofnana skirrast ekki við að gera allt sem í þeirra valdi er til þess að koma í veg fyrir að hömlur séu settar á rekstur spilakassa á Íslandi.
Ef þú lesandi góður ert í vafa um það hversu mikilvægar spilakassatekjur séu fyrir þessi góðgerðarsamtök, þá skalt þú lesa til dæmis ársskýrslur Rauða krossins. Þar sést hve háður Rauði krossinn er þessum tekjum, sem námu yfir 500 milljónum króna árið 2018 og 427 miljónum króna árið 2019. Það munar um minna í rekstri sem telur allt í allt u.þ.b. 2.700 milljónir króna í tekjur.
Er ekki kominn tími til þess að spilafíklar séu ekki lengur taldir vera tekjustofn og að farið verði í hjálparstarf þeim til handa? Það er talið að allt frá 3-6 þúsund íslendingar eigi við spilafíkn að stríða. Á bakvið hvern þann einstakling er fjölskylda hans og nánir vinir, sem í flestum tilvikum eiga um sárt að binda af völdum sjúkdómsins.
Þeim sem vilja styrkja þessi góðgerðarsamtök er bent á að þau taka öll við beinum framlögum og engin þörf er á að láta framlögin renna í gegnum spilakassa. Athugið að spilafíkill hefur ekki þetta val – hann VERÐUR að láta sitt framlag fara í gegnum spilakassa. Sá er munurinn á frjálsum vilja og sjúkdómi.